Hreyfing mánaðarins – Yoga Sálir

 

Yogasálir – Yogastúdíó

 

Yogasálir var stofnað 8. mars 2018 og verður því 4 ára í byrjun mars nk.  Stúdíóið var stofnað þar sem við fundum fyrir eftirspurn í öllu sem tengist Yoga og samfélagi í kringum það.  Þegar við höfum verið á ferðalögum og í okkar námi erlendis sem yogakennarar sáum við hvernig svona samfélög myndast í kringum stúdíóin sem við sóttum.  Hvort sem það var í gegnum Hot Yoga stúdíó eða önnur stúdíó sem iðka rólegra yoga s.s. Yoga-Nidra, Gong heilun o.s.frv., þá var alltaf þetta samfélag til staðar.  Ekkert öðruvísi en kannski í öðrum íþróttum eða félagsskap þar sem fólk hittist og stundar sína iðkun og ræðir um hana í samneyti við fólk með áhuga á sama efni.  Við spurðum okkur hvort við gætum ekki sett upp Yogastúdíó á Selfossi og eftir smá tíma ákváðum við að gera það og við sjáum ekki eftir því.  Óhætt er að segja að okkar samfélag í Yogasálum hafi stækkað og dafnað á þessum fjórum árum.

 

 

Við byrjuðum með einn lítinn sal að Eyravegi 38 þar sem aðaláherslan var á AerialYoga sem er yoga kennt í slæðum sem hanga í loftinu.  Það námskeið var strax fullt og þurfti að bæta við námskeiðum í því.  Einnig vorum við með námskeið í Yogastyrk þar sem fjölbreyttum styrktaræfingum er blandað við stöðum eða flæði í Yoga.  Þetta námskeið varð fljótt orðið eitt af vinsælustu námskeiðunum hjá okkur ásamt Pílates námskeiðum sem við bjóðum upp á.  Að auki fórum við af stað með tíma í Yogaflæði sem er Hot Yogaflæði en kenndum það í „köldum“ hefðbundnum sal þar sem við vorum ekki komin með hitakerfi.  Þessi námskeið og opnir tímar voru grunnurinn að stúdíóinu okkar.  Við fundum strax fyrir að salurinn okkar var of lítill og við fórum að líta í kringum okkur með annað stærra húsnæði.  Í júní fengum við annað húsnæði að Eyravegi 35 (áður Frón og Kaffi&Co.) og hófumst við handa við að breyta húsnæðinu að innan og gera að okkar.  Við hófum starfsemi þar í byrjun sept.2021.  Í dag rekum við Yogasálir í þrisvar sinnum stærra húsnæði en í upphafi og erum með tvo sali ásamt móttöku, setustofu og verslun með yogavörur.  Einnig er góð og búninga -og sturtuaðstaða fyrir okkar viðskiptavini.  Annar salurinn er hefðbundinn salur þar sem yogaslæðurnar hanga m.a. í loftinu.  Hinn salurinn er fullkomin Hot Yoga salur með infrarauðum hitapanelum, fulkominni loftræstingu og rakastýringu.  Hot Yogað er mjög vinsælt hjá okkur og oft þarf að skrá sig á biðlista.  Við höfum einnig fjölgað námskeiðunum okkar með fjölbreyttni í huga og höfum við fengið aðra yogakennar til liðs við okkur vegna þess.  Í haust sl. vorum við með kennaranám í Hot Yoga í samstarfi við Barkan Method of Hot Yoga á Flórída og útskrifuðust sex aðilar með 200 tíma RYT réttindi.  Við stefnum á annað slíkt kennaranám í ágúst nk.

 

 

Við sem eigum og rekum Yogasálir höfum menntað okkur sem Yogakennarar. Ragnheiður Hafstein er með réttindi sem kennari í Hot Yoga, Kundaliniyoga, Aerialyoga, Yinyoga og Yoga-Nidra sem og að vera með einkaþjálfara réttindi og Pílateskennari.  Hún er með yfir 15 ára reynslu í kennslu og iðkun.  Grímur Sigurðsson lærði Hot Yoga og kláraði 500 tíma RYT réttindi 2020 og er einnig með Yinyoga kennsluréttindi.  Allir kennarar hjá Yogasálum eru með kennsluréttindi á sínu sviði.

Við bjóðum alla velkomna í Yogasálir og við bjóðum upp á fría prufutíma fyrir þá sem ekki hafa komið áður til okkar.  Allar nánari upplýsingar um starfsemina okkar má finna inn á http://www.yogasalir.is og þar er hægt að hlaða niður appinu okkar sem er þægilegt til að bóka tíma og margt fleira.

 

Kær kveðja,
Ragnheiður og Grímur
Yogasálum