Nóvember 2021 – Sigríður Sæland

Sveitarfélagið Árborg gerðist formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi þann 20.maí 2019 með því markmiði að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsusamlegum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra. Þar sem Stúdíó Sport hvetur til almennrar hreyfingar langar okkur, í samstarfi við sveitarfélagið, að vekja athygli á fólki sem hefur tileinkað sér hreyfingu hvort sem það tengist íþróttum eða ekki með því að vera með ‘hvatning mánaðarins’.

Hvatning mánaðarins nóvember 2021 er Sigríður Sæland.

 

 

  • Nafn: Sigríður Sæland.

 

  • Aldur: 77 ára.

 

  • Starf: Fyrrverandi Íþróttakennari og skyndihjálpa leiðbeinandi.

 

  • Hvað gerir þú til að stuðla að almennri hreyfingu?, hve oft á dag/viku/mánuði? og hve lengi í senn? Ég er mjög mikið fyrir að hreyfa mig og reyni ég að fá einhverja hreyfingu á hverjum degi. Þá fer ég allra helst í 7-10 km göngu, mest megnis hér á Selfossi eða í Hellisskógi. Einnig er ég að prófa yoga hjá Yogasálum og fer í það 2x í viku og svo finnst mér yndislegt að hjóla votmúlahringinn. Hef annars stundað vatnsleikfimi og göngur hjá Vatn og heilsu í mörg ár.  Á sumrin er ég síðan alltaf í einhverri garðavinnu í garðinum sem er mikið áhugamál hjá mér en það er ákveðin hreyfing út af fyrir sig 🙂

 

  • Ertu með eitthvað sérstakt mataræði? Eitthvað sem þú heldur þig alveg frá eða eitthvað sem þér finnst gefa þér orku yfir daginn? Ég er ekki með neitt sérstakt mataræði og borða í raun og veru bara allt úr fæðuhringnum, en auðvitað er allt gott í hófi.

 

  • Hvað finnst þér hjálpa til við að viðhalda bæði andlegri og líkamlegri heilsu? Mér finnst yndislegt að vera með, lesa og leika við barnabörnin og langömmubörnin, en þau gefa mér ótrúlega mikið andlega séð. Einnig les ég sjálf heilmikið, geri mikla handavinnu eins og postulínsmálning sem er mjög mikil slökun, þá sérstaklega þegar ég get hlustað á sögur í leiðinni. Mér finnst göngur einnig hjálpa mikið og gefa mér góða andlega næringu og jafnvægi. Náttúran gefur mér einnig mikla orku en áður fyrr gekk ég mikið á fjöll bæði á íslandi og erlendis, ásamt því að fara í skíðaferðir og lengri göngur.

 

  • Hefuru alltaf hreyft þig, ef ekki hvað kom til? Ég hef alltaf hreyft mig, alveg frá því ég var barn. Ég ólst upp í Reykholti í Biskupstungu og þar var 8-10 metra sundlaug þar sem ég var oft og var í raun aðal samkomustaður okkar krakkana, einnig vorum við mikið úti í allskonar leikjum og skemmtilegheitum.

 

  • Hvað gefur þér drifkraftinn í að hreyfa þig? Mér líður best í hreyfingu og verð alltaf að hafa eitthvað að gera enda finnst mér erfitt að sitja bara og gera ekki neitt. Ég hef mjög mikla orku og verð að nýta hana í að hreyfa mig og skapa eitthvað.

 

  • Ertu með eitthvað heilráð eða annað sem þú vilt koma á framfæri sem gæti mögulega gefið öðru fólki innblástur? Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig og mæli eindregið með því að fólk hreyfi sig á hverjum degi þar sem það gefur manni svo ótrúlega mikið, enda er maður manns gaman. Ég mæli ótrúlega mikið með að fara út í göngu, njóta kyrrðarinnar og fuglasöngsins. Móaganga er ótrúlega góð fyrir líkamann og svo er svo gott að komast út fyrir bæinn í smá hvíld og heilun.

 

Við þökkum Sigríði kærlega fyrir þetta einlæga spjall og fyrir að vera partur af þessum nýja lið hjá okkur!